Handbolti

Seinni bylgjan fór yfir frábæra frammistöðu Sigurjóns Guðmundssonar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sigurjón Guðmundsson átti frábæran leik í marki HK.
Sigurjón Guðmundsson átti frábæran leik í marki HK. Mynd/skjáskot

Sigurjón Guðmundsson stóð vaktina í marki HK þegar að liðið tók á móti KA í fyrstu umferð Olís-deildar karla síðasta fimmtudag. Sigurjón varði 18 bolta og sérfræðingar Seinni bylgjunnar veittu honum verðskuldaða athygli. Sigurjón er sonur Guðmundar Hrafnkelssonar, fyrrum landsliðsmarkmanns Íslands.

„Byrjum á að skoða frammistöðu Sigurjóns Guðmundssonar. Hann var geggjaður í þessum leik,“ sagði Stefán Árni Pálsson, stjórnandi þáttarins.

Theodór Pálmason, annar af sérfræðingum þáttarins, tók í sama streng.

„Hann eiginlega bara hélt HK inni í þessum leik eins lengi og þeir voru inni í þessum leik. Hann var algjörlega frábær og svona á sama tíma var Nicholas Satchwell [markvörður KA] að verja mjög lítið.“

„Það eru nokkur ár síðan að maður heyrði af þessum strák og hann var víst mjög góður í Grill-deildinni í fyrra. Það er bara virkilega gaman að sjá hann stimpla sig svona inn í fyrsta leik. Hann á heldur ekki langt að sækja hæfileikana sína.“

Eins og Theodór talar um á Sigurjón ekki langt að sækja markmannsgenin, en hann er sonur Guðmundar Hrafnkelssonar, sem lék í fjöldamörg ár með íslenska landsliðinu.

Strákarnir skoðuðu síðan gamlar klippur af nokkrum frábærum vörslum Guðmundar, annars vegar í marki Valsmanna, og hins vegar þegar hann varði íslenska markið gegn þýska landsliðinu.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Sonur Gumma Hrafnkels geggjaður

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×