„Ég get ekki séð á umferð að fólk sé að flýja, ég held að það sé frekar bara í hina áttina, alveg eins og á Íslandi. Þegar það er eldgos á Íslandi flykkjast menn bara að gosstöðvunum, getur líka vel verið þannig hér á La Palma líka,“ segir Þórarinn í samtali við fréttastofu.
Samkvæmt frétt Reuters hafa yfirvöld á La Palma þó varað fólk við því að fara nærri eldgosinu. „Farið ekki nálægt hraunflæðinu undir neinum kringumstæðum,“ segja þau.
Pollrólegur yfir stöðunni
Þórarinn segist ekki hafa miklar áhyggjur af eldgosinu. „Já, ég er nú yfirleitt rólegur og það er lítið gagn af því að vera að panikka. Ég ætla nú bara að halda ró minni og vona það besta. Ég á nú pantað flug á fimmtudaginn, aldeilis óviss hvort að því verði frestað. Það væntanlega veltur á næstu dögum, hvort þetta eldgos verði stærra,“ segir hann.
Flugsamgöngur til og frá La Palma ganga sinn vanagang sem stendur.
Hann segist þó ekki fylgjast mjög vel með fréttum en að hann fylgist með gosinu frá útsýnisstað í nálægð við heimili hans. Nú sé eldfjallið sveipað skýjahulu svo lítið sé að sjá í augnablikinu.
„Mér var í rauninn bara sagt frá því. Í gær voru fréttir af litlum jarðskjálftum en ég átti ekkert von, eftir mína reynslu á Íslandi, að það kæmi bara strax gos. Þannig að það kom vissulega á óvart,“ segir Þórarinn aðspurður hvenær hann hefði orðið gossins var.
Ekki vitað af Íslendingum í hættu
Þórarinn býr á La Palma ásamt þremur dætrum sínum og hann segist vita af einni íslenskri konu sem býr á eynni. Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins sagði í samtali við Vísi í dag að ekki lægi fyrir hversu margir Íslendingar væru í námunda í við gosið, en að enginn hefði haft samband við borgaraþjónustuna vegna gossins.