Innlent

Sjóslys við Akurey og leit á Esjunni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölda útkalla vegna slysa í gærkvöldi og nótt. Í tveimur tilvikum voru björgunarsveitir einnig kallaðar til; annað varðaði sjóslys og hitt einstakling sem villtist á Esjunni.

Í fyrra tilvikinu var um að ræða fjóra menn sem sigldu slöngubát sínum á sker sunnan við Akurey. Björgunarsveit kom mönnunum til bjargar, sem voru afar blautir og kaldir. Voru þeir fluttir á bráðamóttöku.

Þá var björgunarsveit ræst út til leitar að manni sem hafði tapað áttum í vondu veðri á Esjunni. Maðurinn fannst rúmum tveimur og hálfum tíma eftir að beiðni um hjálp barst og var aðstoðaður til byggða.

Lögregla var einnig kölluð til þegar ekið var á gangandi vegfaranda í miðborginni og var viðkomandi fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabifreið með áverka á mjöðm og fæti.

Þá slasaðist einn þegar ekið var á kyrrstæða bifreið í póstnúmerinu 105. Var hann fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabifreið en ekki er vitað hversu alvarleg meiðslin voru.

Í Hafnarfirði koma lögregla manni til aðstoðar sem hafði dottið á höfuðið. Sjúkralið gerði að sárum hans og lögregla ók honum heim. Þá var lögregla kölluð til þegar ofurölvi maður féll á höfuðið í Breiðholti en hann hlaut áverka á höfði og var fluttur á bráðamóttöku.

Kona sem féll á rafmagnshlaupahjóli í Breiðholti var sömuleiðis flutt á bráðamóttöku en engin slys urðu á fólki þegar ökumaður ók bifreið sinni útaf á Kjalarnesi. Þá slasaðist enginn þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og ók á ljósastaur í Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×