Íslenski boltinn

Víkingar munu skanna hraðprófskóðann við innganginn á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingar fagna marki í Víkinni í sumar.
Víkingar fagna marki í Víkinni í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Það er búist við troðfullri Vík á morgun þegar Víkingar geta tryggt sér fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn í þrjátíu ár.

Víkingar ætla að fara nýja leið til að geta tekið við fimmtán hundruð manns á leikinn og sett nýtt vallarmet en mikill áhugi er á leik Víkinga og Leiknis í lokaumferð Pepsi Max deildar karla í fótbolta.

Víkingar fara vegna þessa yfir málin á heimasíðu sinni því það er margt sem áhorfendur þurfa að huga að við þessar nýju og sérstöku aðstæður sem verða í Fossvoginum á morgun.

Leikurinn hefst klukkan 14.00 en Víkin opnar klukkan tólf á hádegi með veitingasölu og sölu á derhúfum, treflum og annars konar varningi. Víkingar lofa mikilli stemningu í íþróttasalnum fyrir leik þar sem Víkingar munu hittast og hita upp fyrir leikinn.

Það er ekki mikið pláss fyrir bíla í nágrenni Víkinnar og Víkingar hvetja því fólk til þess að mæta snemma á völlinn og ganga að heiman ef það er möguleiki.

Víkin er líka eitt sóttvarnarhólf á leiknum og eru stuðningsmenn ýmist með sæti í stúkunni eða stæði. Staðsetning kemur fram í Stubbi þar sem allir miðar eru aðgengilegir. Mikilvægt er að allir virði þá miða sem þeir hafa til ráðstöfunar, hvort sem þeir eru í stúku eða stæði.

Allir sem eru 16 ára og eldri og eiga aðgöngumiða á leikinn þurfa að fara í hraðpróf og framvísa neikvæðri niðurstöðu við innganginn á völlinn – ásamt aðgöngumiða. Staðsetningar tveggja skimunarstöðva Öryggismiðstöðvarinnar í Reykjavík eru í Húsi verslunar við hliðina á Kringlunni annars vegar og BSÍ hins vegar.

Hraðpróf má ekki vera eldra en 48 klukkustunda gamalt og ekki nægir að framvísa vottorði um fyrri sýkingu. Við inngang í Víkina verður QR kóði skannaður sem staðfestir neikvætt COVID-19 hraðpróf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×