Skoðun

Við eigum öll erindi á Al­þingi

Lenya Rún Taha Karim skrifar

Í þessari kosningabaráttu hef ég þurft að svara einni spurningu oftar en nokkurri annarri: Af hverju ég en ekki einhver annar?

Stærsta ástæðan er einfaldlega af lýðræðislegum toga. Ég tel mig vera góðan fulltrúa fjölbreyttra hópa sem fá sjaldan eða aldrei áheyrn í íslensku samfélagi: Ungt fólk og fólk með erlendan bakgrunn. Við gleymum því nefnilega allt of oft að rúmlega 15% af þjóðarinnar eru innflytjendur eða útlendingar og hlutfall ungs fólks er ennþá hærra. Þessir hópar hafa hins vegar engan málsvara á Alþingi eins og er.

Rauði þráðurinn í starfi Pírata er lýðræði. Það er ekki hægt að tala um virkt og skilningsríkt lýðræði ef gríðarstór hluti þjóðarinnar á sér engan málsvara sem þekkir aðstæður þeirra af eigin raun. Hvernig á alþingismaður, sem hefur enga snertingu við þessa hópa, að geta sett sig í þeirra fótspor? Það er hreinlega óraunhæf krafa.

Ég hef því góða innsýn inn í reynsluheim fjölda Íslendinga sem ratar sjaldan inn fyrir veggi Alþingis. Inn í íslenska samfélagið þar sem ég fæddist en einnig í erlenda samfélagið á Íslandi. Ég ólst upp við kúrdísk gildi heima hjá mér og íslensk gildi í menntakerfinu En það viðhorf virðist ríkjandi að við töpum á því að hjálpa þessum tveimur ólíku hópum að aðlagast hvor öðrum. Af hverju ætli það sé?

Síðast en ekki síst er hreinlega kominn tími til að lofta út á Alþingi. Meðalaldurinn er að nálgast 50 ára þar og mín kynslóð á ekki eitt sæti við borðið. Ég er hluti af kynslóðinni sem fær að hafa áhrif eftir 10-15 ár, því þá þurfum við ekki að reyna að troða okkur inn á þing, heldur verður fyrst þá komið að okkur í aldursröðinni. Ég er einnig hluti af þeirri kynslóð sem neyðist til þess að moka upp skít eftir núverandi ráðamenn því þau neituðu að grípa til aðgerða í loftslags- og umhverfismálum, útlendingamálum og mannréttindamálum. Mín kynslóð krefst þess að þessi vinna hefjist núna strax.

Ég er vissulega ung en ég er líka bjartsýn. Ég er bjartsýn á að það sé hægt að snúa blaðinu við og móta góða framtíð fyrir alla hópa samfélagsins á næstu 4 árum. Með lýðræðið að leiðarljósi og raunverulegri aðkomu allra í íslensku samfélagi, sérstaklega þeirra sem eiga sér enga rödd á Alþingi í dag.

Höfundur skipar 3. sæti á lista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×