Innlent

Fella úr gildi á­kvörðun Voga um að hafna leyfi fyrir Suður­ne­sja­línu 2

Atli Ísleifsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Suðurnesjalína 1 er í dag eina línan sem flytur rafmagn til Suðurnesjanna.
Suðurnesjalína 1 er í dag eina línan sem flytur rafmagn til Suðurnesjanna. Vísir/Vilhelm

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Sveitarfélagsins Voga um að hafna framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 sem Landsnet hyggst reisa.

Þá hefur nefndin einnig tekið fyrir kærur fimm umhverfissamtaka á leyfisveitingar annarra sveitarfélaga á línuleiðinni, það er Grindavík, Hafnarfjörð og Reykjanesbæ.

Bæjarfélögin höfðu öll samþykkt framkvæmdaleyfin og úrskurðaði nefndin að öll leyfin skyldu standa, nema hjá Hafnarfirði.

Þetta þýðir að Hafnarfjarðarbær og Vogar þurfa nú að taka umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi til afgreiðslu að nýju.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.Landsnet

Vogar vilja línuna í jörð en Landsnet loftlínu

Vogar hafa talað fyrir að Lands­net leggi línuna í jörðu eins og Skipulags­stofnun hefur mælt með í um­hverfis­mati sínu en Lands­net hyggst hins vegar leggja loft­línu, sem er mun ó­dýrari fram­kvæmd.

Í tilkynningu frá Landsneti er haft eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets að fyrirtækið hafi talið mikilvægt að kæra ákvörðun Sveitarfélagsins Voga um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi til úrskurðarnefndarinnar þar sem úrskurðarnefndin hafi þá þegar til afgreiðslu kærur náttúruverndarsamtaka á framkvæmdaleyfum Grindavíkur, Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar.

„Nú liggur fyrir niðurstaða úrskurðarnefndarinnar og er ákvörðun Voga um að hafna framkvæmdaleyfinu ógild og að Hafnarfjörður þarf að setja málið aftur á dagskrá. Málið er því aftur komið inn á borð Voga og Hafnarfjarðarbæjar. Við vonumst til hægt verði að afgreiða málin sem fyrst þannig að hægt verði að hefjast handa við byggingu Suðurnesjalínu 2,“ er haft eftir Guðmundi Inga.

Þörf á annarri línu

Náttúru­verndar­sam­tökin fimm sem kærðu leyfisveitingarnar eru Land­vernd, Náttúru­verndar­sam­tök Ís­lands, Náttúru­verndar­sam­tök Suð­vestur­lands, Ungir um­hverfis­sinnar og Hrauna­vinir.

Suður­ne­sja­lína 1 er nú eina línan sem skaffar Suður­nesjunum raf­orku en flestir sem koma að málinu, sveitar­fé­lög, ráð­herrar og Skipu­lags­stofnun virðast sam­mála um að þörf sé á annarri línu til að tryggja raf­orku­öryggi á Suður­nesjum.


Tengdar fréttir

Fram­­kvæmd Suður­ne­sja­línu 2 í upp­­­námi

Fyrir­huguð fram­kvæmd Lands­nets á Suður­ne­sja­línu 2 er komin í upp­nám að sögn upp­lýsinga­full­trúa Lands­nets, Steinunnar Þor­steins­dóttir. Þetta kemur þeim sem fylgst hafa með málinu kannski ekki á ó­vart en það hefur farið fram og til baka í kerfinu síðan árið 2008, þegar leggja átti svo­nefnda Suð­vestur­línu.

Landsnet kærir ákvörðun Voga

Forsvarsmenn Landsnets hafa ákveðið að að vísa ákvörðun Sveitarfélagsins Voga um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Deilt hefur verið um framkvæmdirnar um árabil en Grindavík, Hafnarfjörður og Reykjanesbær höfðu áður samþykkt umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×