Skoðun

Trú­boðinn sem iðkar ekki trúna sem hann boðar

Tómas Ellert Tómasson skrifar

Á síðum Morgunblaðsins í dag má sjá fréttir af því að Birgir Þórarinsson þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi hafi yfirgefið flokkinn og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Í minningargrein sem þingmaðurinn svo birtir í sama blaði rekur hann ástæður brotthvarfsins frá sínum klaustursdyrum séð. Úr klaustursdyrum sínum hrópar hann ókvæðisorðum í garð fyrrum samflokksfélaga og samstarfsmanna sinna og vandar þeim ekki kveðjurnar. Auk þess upplýsir hann, viljandi eða óviljandi, um óheilindi sín í garð fyrrum félaga sinna í aðdraganda kosninga og síðan eftir kjördag. Það er því vel við hæfi að Morgunblaðið kjósi að prýða slíka grein með mynd af kynjaverum á ferð með skrítin augu.

Sjálfshyggja í stað skynsemishyggju

Miðflokkurinn var stofnaður fyrir skynsamt fólk með skýra sýn á grundvallarmál samfélagsins sem leitar ætíð að skynsamlegustu lausninni á hverju viðfangsefni á grundvelli rökhyggju og rökræðu. Skynsemishyggja var stefnan nefnd.

Birgir Þórarinsson, nú kjörinn þingmaður Miðflokksins í 10 daga, ákvað að kasta þeirri stefnu fyrir róða og taka í staðinn upp sjálfshyggju. Sjálfshyggju þingmannsins virðast lítil takmörk sett á sviði stjórnmálanna þessi dægrin. Nokkrar birtingamyndir hennar koma fram í minningargreininni sem hann skrifar í Morgunblaðið. Það sem sker þó helst í skynsöm augu við lestur hennar, er að það sé mögulegt að koma kvarthundrað sinnum fyrir orðinu „ég“ í tæplega sjöhundruð orða grein. Og að hann klappi sjálfum sér á bakið og þakkar sér kærlega fyrir að hafa viðhaldið styrkleika Miðflokksins í Suðurkjördæmi á síðasta kjörtímabili. Úrslit kosninganna nú séu svo öðrum að kenna.

Undirritaður og helsti bandamaður þingmannsins á síðasta kjörtímabili frétti ekki af þessum hugrenningum og útspili fyrren eftir að sjálfsákvörðunin var tekin og framkvæmd. Hvar eru samviskan og heilindin í því?

Það er himinljóst í mínum huga nú, að þingmaðurinn sjálfur, hefur ákveðið að taka sér það hlutverk að vera: „trúboðinn sem iðkar ekki trúna sem hann boðar“.

Höfundur er bæjarfulltrúi Miðflokksins í Sveitarfélaginu Árborg.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×