Handbolti

Stór­leikur Elvars dugði ekki gegn Ólafi Andrési og fé­lögum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elvar átti frábæran leik í dag.
Elvar átti frábæran leik í dag. Nancy

Montpellier lagði Nancy með þriggja marka mun í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, lokatölur 33-30 gestunum í vil. Ólafur Andrés Guðmundsson leikur með Montpellier og Elvar Ásgeirsson með Nancy.

Leikurinn var mjög jafn framan af og aðeins munaði einu marki á liðunum í hálfleik, staðan þá 14-13 Montpellier í vil. Gestunum tókst í raun aldrei að hrista Nancy af sér, helst þökk sé stórkostlegum leik Elvars en á endanum tókst Montpellier að vinna með þriggja marka mun, lokatölur 33-30.

Elvar skoraði sex mörk í liði Nancy og gaf fimm stoðsendingar til viðbótar. Ólafur Andrés tók ekki mikinn þátt í sóknarleik Montpellier og komst þar af leiðandi ekki á blað.

Montpellier er í 8. sæti deildarinnar með níu stig, líkt og Nimes og Chartres sem eru sitthvoru megin við Ólaf Andrés og félaga í töflunni. Aðeins eru þó tvö stig upp í 2. sætið en deildin er einkar jöfn.

Nancy er í 15. sæti með fjögur stig líkt og Saran, Dunkerque og Istres.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×