Ráðstefnan ætti þó að skila meiri samdrætti í útblæstri á komandi árum en þeim 60 þúsund tonnum sem falla til vegna hennar.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Sævars Helga Bragasonar hér á Vísi síðan fyrr í dag.
Þar fer Sævar yfir þær gagnrýnisraddir sem hafa verið uppi um meintan tvískinnung sem felst í því að þjóðarleiðtogar og aðrir ráðstefnugestir stuðli að útblæstri gróðurhúsalofttegunda með því að fljúga til funda í Glasgow.
„Í heilagri vandlætingu benda þau á allt fólkið sem þangað flykkist fljúgandi til að ræða lausnir við loftslagsvandanum.“
Sævar segir að lauslega áætlað sé kolefnisfótspor COP26 um 60 þúsund tonn af koldíoxíði í heildina, sem deilist niður á næstum 30 þúsund manns. Það falli að mestu til vegna ferðalaga gesta til og frá Glasgow. COP26 sé líka kolefnisjöfnuð ráðstefna.
„Kannski er það óhófleg bjartsýni, jafnvel barnaleg, að vonast til þess að ráðstefnan skili meiri samdrætti í losun á heimsvísu en 60 þúsund tonn. Við vitum nú þegar að samþykkt var að stöðva eyðingu regnskóga fyrir árið 2030. Sú aðgerð mun draga úr heimslosun um milljarða tonna. 60 þúsund tonn fyrir milljarða tonna eru ágæt skipti. Eins gott að það standist. Það þarf samt að gera miklu betur.“
Hann setur þessi 60 þúsund tonn í samhengi við ýmsar stærðir í losun hér á landi.
Losun frá úrgangi, óflokkuðu sorpi, hafi t.d. numið 224 þúsund tonnum hér á landi árið 2019, losun frá landbúnaði nemi um 619 þúsund tonnum á ári og málmiðnaður losar um 2 milljónir tonna á ári, eða um 33svar sinnum meira en COP26.
Þar á móti er sporið af flugferðum Íslendinganna sem sækja COP26 er í kringum 13 tonn.
„Af þeim eru nítján einstaklingar á vegum hins opinbera,“ segir Sævar. „Þessir sömu einstaklingar sýna ábyrgð með því að fækka öðrum ferðum í staðinn og taka einnig virkan þátt í Grænum skrefum ríkisstofnanna.“
Sævar bætir því við að það sé furðulegt hvernig sumir ákveða að „loka eyrum og augum fyrir stærsta vandamáli sem mannkynið hefur glímt við“.
Sú kynslóð sem nú hrópi hæst um hræsni verði ekki til staðar til að glíma við mestu og verstu áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum.