Um kl. 21 var tilkynnt um innbrot í bifreið í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Var rótað í bílnum og munum stolið og búið að skemma kveikjulásinn.
Rétt fyrir kl. 22 var tilkynnt um innbrot á heimili í Hlíðahverfi. Þar var „losaður úr gluggi“ samkvæmt tilkynningu lögreglu og farið inn en ekki er vitað hverju var stolið.
Um kl. 22.30 var síðan tilkynnt um innbrot í Múlahverfi en þar var stormjárn skemmt og farið inn. Búið var að róta í munum á heimilinu og vinna einhverjar skemmdir á innanstokksmunum. Hinir óprúttnu aðilar eru sagðir hafa haft sig á brott þegar öryggiskerfi fór í gang.
Fyrir utan húsið fundust munir sem eru taldir tengjast öðrum innbrotum.
Um kl. 23 var tilkynnt um líkamsárás á veitingastað í miðborginni. Þar fékk dyravörður hnefahögg í andlitið og vitað er hver gerandinn var.
Þá var tilkynnt um slys í miðborginni skömmu eftir miðnætti. Ungur maður datt af rafmagnshlaupahjóli og hlaut skurð, auk þess að vera illa áttaður eftir fallið. Var hann fluttur á bráðamóttöku Landspítala með sjúkrabifreið.