Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samgöngustofu, þar sem vakin er athygli á alþjóðlegum minningardegi um þá sem látist hafa í umferðinni, 21. nóvember. Í ár verður dagurinn notaður til að beina sjónum að afleiðingum þess að nota ekki öryggisbelti.
„Tilgangurinn með deginum er að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni; leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni. Þá er rík hefð fyrir því á minningardeginum að færa starfsstéttum, sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður, þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf.
Minningardagurinn er alþjóðlegur undir merkjum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum,“ segir í tilkynningunni.

Ef horft er til síðustu 10 ára hafa 12 manns látist í umferðinni að meðaltali ár hvert. Áratuginn þar á undan, árin 2001 til 2010, létust að meðaltali 20 manns í umferðinni á hverju ári.
„Segja má að allt samfélagið deili með sér alvarlegum afleiðingum umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni. Það er því til mikils að vinna að koma í veg fyrir slysin og megi þessi dagur efla vitund okkar fyrir því og ábyrgð.“
Efnt verður til minningarathafnar við Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð kl. 14. Þar verða forseti Íslands og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra viðstaddir og flytja ávörp. Þá verður einnig kveikt á kertum til minningar um fórnarlömb umferðarslysa.
Boðuð verður einnar mínútu þögn sem landsmenn eru hvattir til að taka þátt í en vegna kórónuveirufaraldursins verður streymt frá athöfninni á vef minningardagsins.