Handbolti

Haukar töpuðu með tveggja marka mun í Rúmeníu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Haukar - FH Olís deild karla vetur 2021 handbolti HSÍ
Haukar - FH Olís deild karla vetur 2021 handbolti HSÍ

Haukar þurfa að vinna upp tveggja marka mun þegar þeir mæta Focsani í seinni viðureign liðanna að Ásvöllum eftir viku, eftir að hafa tapað á svekkjandi hátt í Rúmeníu í dag.

Leikurinn var afar jafn stærstan hluta leiksins en Haukar höfðu yfirhöndina til að byrja með. Heimamenn leiddu hins vegar með einu marki í leikhléi, 16-15.

Rúmenarnir virtust ætla að stinga af um miðbik síðari hálfleik þegar þeir náðu fjögurra marka forystu en Haukum tókst að vinna sig til baka í leikinn og var jafnt á öllum tölum síðustu tíu mínútur leiksins.

Á lokamínútunni skoruðu heimamenn tvö mörk gegn engu marki Hauka og unnu því tveggja marka sigur, 28-26. 

Svekkjandi endir fyrir Hafnarfjarðarliðið en liðin mætast að nýju um næstu helgi í Evrópubikarnum.

Darri Aronsson var markahæstur í liði Hauka með sjö mörk og Brynjólfur Snær Brynjólfsson kom næstur í markaskorun með sex mörk. Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, fékk að líta rauða spjaldið í leikhléi að því er fram kemur í textalýsingu á handbolti.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×