Mótmælin fóru eflaust ekki fram hjá neinum sem átti leið um miðbæinn á milli klukkan 16 og 17 í dag en óvenjumargir sóttu mótmælin í samanburði við fyrri mótmæli þeirra sem efast um gildi bólusetninga.
Eins og fjallað var um í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær þá auglýsti hópurinn mótmælin undir heitinu Friðarganga, hernaðarandstæðingum til lítillar ánægju en þeir hafa haldið árlega friðargöngu á Þorláksmessu frá árinu 1980. Sérstaklega sveið þessi nafnastuldur vegna þess að hernaðarandstæðingar hafa aflýst göngu sinni í ár af tilliti til sóttvarnatakmarkana.
Í samtali við fréttastofu í gær þvertóku skipuleggjendur mótmælanna fyrir að nafnið væri fengið frá friðargöngu hernaðarandstæðinga. En sama hvort mótmælendur hafi haft hina fjörutíu ára gömlu jólahefð hernaðarandstæðinga í huga við nafngiftina eða ekki verður óumdeilt að titillinn er góður á mótmæli.
Og slagorð mótmælanda sem sjá mátti á skiltum þeirra voru einnig mörg nokkuð frumleg og jafnvel fyndin, sama hvað hverjum kann að finnast um boðskapinn sjálfan.
Þar mátti sjá bregða fyrir hinu klassíska stílbragði, rími, hjá einum sem gekk framarlega í hópnum niður Laugaveginn: „Hvenær verður faraldur faraldur, Haraldur?“ og má þar ætla að spurningunni sé beint að fyrrverandi sóttvarnalækni Haraldi Briem.
Og annar virtist ósáttur með gjöfina sem hann hafði fengið í skóinn hjá Hurðaskelli í nótt, kannski skiljanlega en á hans skilti stóð:
„Hvað fékkstu í skóinn? Ég fékk 2ja metra málband“.