Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun þar sem segir að stofnunin og Tilraunastöð HÍ að Keldum hafa áhuga á að fá sýni til greiningar.
Veiruskita er bráðsmitandi sjúkdómur í nautgripum. Ekki hefur tekist að greina orsök sjúkdómsins en honum svipar mjög til sjúkdóms sem kallast á ensku „winter dysentery“. Talið er að orsök þess sjúkdóms sé nautgripakórónaveira en það hefur þó ekki verið staðfest, segir á vef MAST.
Sjúkdómurinn smitast með saur og slími frá nösum. Smit berst mjög auðveldlega með fólki, dýrum og ýmsum hlutum, svo sem múlum, fatnaði, tækjum og bifreiðum. Oftast smitast allir næmir gripir á búinu á nokkrum dögum og sjúkdómurinn gengur yfir á einni til tveimur vikum. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur fólki og hefur ekki áhrif á neysluhæfni afurða.
Bændur sem vilja senda sýni hafi samband við dýralækni
Segir ennfremur að afleiðingar sjúkdómsins geti verið alvarleg og langdregnar þar sem hann veiki ónæmiskerfi kúnna.
„Mikilvægt er að bændur hugi vel að sóttvörnum á búum sínum og dragi eins og mögulegt er úr umgengni utanaðkomandi fólks um búið og flutningi gripa og tækja milli búa. Þeir sem fara inn í gripahús ættu að nota hlífðarfatnað og stígvél búsins eða einnota skó-/stígvélahlífar. Tæki sem notuð eru á búinu þarf að þrífa og sótthreinsa eins og kostur er, áður en þau eru notuð á öðrum búum,“ segir á vef MAST.
Matvælastofnun og Tilraunastöð HÍ að Keldum óska eftir samstarfi við bændur um töku sýna til rannsókna. Bændur sem áhuga hafa að taka þátt eru vinsamlega beðnir að hafa samband við sinn dýralækni um sýnatökur.