Innlent

„Þetta verður mikið vesen”

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, segir ómíkronafbrigðið svo smitandi að við mundum ekki ráða við að greina alla sem smitast ef það fær að geysa hér óhindrað. 
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, segir ómíkronafbrigðið svo smitandi að við mundum ekki ráða við að greina alla sem smitast ef það fær að geysa hér óhindrað.  Vísir/Arnar

Prófessor í líftölfræði segir allt stefna í heljarinnar vesen þegar ómíkronafbrigðið tekur yfir. Það smitast margfalt hraðar heldur en fyrri afbrigði og ef það fengi að geysa óhindrað yrðu svo mörg smit hér að það væri ekki einu sinni hægt að greina þau öll.

Af þessum tæplega 300 sem greindust í gær voru 180 utan sóttkvíar og nokkuð stór hluti óbólusettur. Nú eru meira en fimm þúsund manns á landinu annað hvort í einangrun með COVID 19 eða í sóttkví.

Lóðbeinn vöxtur upp á við

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, segir að þó að það hafi komið vísbending um viðsnúning í síðustu viku varðandi vaxtahraða veirunnar hér, er allt að stefna í nýjan veruleika. Hann segir tvöföldunartíma veirunnar ískyggilega hraðan. Ef faraldurinn tekur sömu stefnu hér og til dæmis í Danmörku eða Bretlandi, er hægt að gera ráð fyrir nýjum lóðbeinum vexti upp á við. Fyrri afbrigðin náðu að tvöfalda sig á þremur vikum.

„Hraðinn núna er kominn niður í viku. Og Bretar eru að segja að tvöföldunarhraðinn á omikron, ef hún fær að geysa, séu tveir eða þrír dagar. Við erum í 300, þá erum við að tala um 600 eftir viku,” segir Thor. „Svo tekur ómikron yfir.”

Mundu ekki ráða við að greina alla

Allt færi hér á hliðina ef ómíkron, sem er miklu meira smitandi en delta, fengi að geysa óhindrað.

„Þetta er bara alveg nýr veruleiki fyrir okkur. Við mundum ekki einu sinni ráða við sinni við að greina þennan fjölda. Þannig að þetta verður mikið vesen.”

Raðgreining á nýjum smitum liggur enn ekki alveg fyrir, en ljóst er að ómíkron afbrigðið sækir hratt í sig veðrið og tekur líklega yfir delta áður en langt um líður.


Tengdar fréttir

Ómíkron úr einu prósenti í 73 á þremur vikum

73 prósent þeirra Bandaríkjamanna sem smituðust af Covid-19 í síðustu viku, smituðust af ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar. Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) segir hlutfall ómíkron-afbrigðisins af smitum vikunnar vera sex sinnum hærra en í vikunni á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×