Fréttablaðið greindi í gær frá því að Héraðsdómur Reykjaness hefði staðfest ákvörðun sóttvarnalæknis að einstaklingurinn þyrfti að sæta fyrrnefndri sóttkví. Var ákvörðunin á grundvelli þess að einstaklingurinn hafði verið í nálægð við fólk smitað af Covid-19 á tveimur mismunandi tímum.
Í tilkynningu Gunnars Inga Jóhannssonar lögmanns segir:
„Umbjóðandi minn er þríbólusettur, hefur margsinnis gengið undir pcr-próf sem öll reyndust neikvæð, og verið samfellt útsettur fyrir smiti á heimili sínu frá 10. desember sl. án þess að smitast. Umbjóðandi minn telur þann tíma sem hann hefur verið skikkaður til að vera í sóttkví, þ.e. 23 dagar, óhóflegan auk þess sem hann telur margvíslega meinbugi á málsmeðferð sóttvarnarlæknis.“
Málið verði að öðru leyti ekki rekið í fjölmiðlum hér eftir.
Óvíst er hvenær Landsréttur kveður upp úrskurð sinn í málinu. Svo gæti farið að viðkomandi væri laus úr sóttkví áður en úrskurður fellur. Þar með væri uppi skortur á lögvörðum hagsmunum einstaklingsins enda ekki lengur í sóttkví.
Fleiri mál hafa verið rekin fyrir dómstólum gegn sóttvarnalækni. Þannig staðfesti héraðsdómur í gærkvöldi ákvörðun sóttvarnalæknis um tíu daga einangrun í tilfelli fimm einstaklinga sem greindust með Covid-19. Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og lögmaður, rekur málin og segir til skoðunar að fara með þau fyrir Landsrétt.