Þetta sagði upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Manchester í samtali við fréttastofu. Líklegt er að lögreglan muni ekkert gefa út um málið fyrr en á morgun. Farbann yfir Gylfa rennur út í dag en það var framlengt um nokkra daga á föstudag. Samkvæmt svörum upplýsingafulltrúa bíður lögreglan nú ákvörðunar dómstóla um hvað skuli gera næst í málinu.
Gylfi Þór var handtekinn á heimili sínu í Manchester á Englandi þann 16. júlí síðastliðinn grunaður um að hafa brotið kynferðislega á ólögráða ungmenni. Gylfi var færður til yfirheyrslu en síðar sleppt en hann hefur þó verið í farbanni síðan hann var handtekinn.
Farbannið hefur nú verið framlengt í þrígang en síðast átti það að renna út á sunnudag. Fyrir helgi var það svo framlengt til dagsins í dag, miðvikudags.
Lögregla vildi lítið segja til um stöðu rannsóknar en draga má þá ályktun, þar sem farbannið var framlengt um aðeins nokkra daga, að hún sé á lokastigi.
Næstu skref séu í raun að lögregla og dómstólar á Englandi ákveði hvort fella eigi niður málið gegn honum eða gefa út ákæru á hendur honum.
Gylfi hefur undanfarin misseri spilað með enska knattspyrnuliðinu Everton í bresku úrvalsdeildinni í fótbolta. Hann hefur þó ekki leikið einn einasta leik með liðinu á þessu keppnistímabili en Everton gaf það út að leikmaðurinn, sem væri til rannsóknar, myndi ekki spila með liðinu á meðan rannsókn stæði yfir.
Þá hefur Gylfi heldur ekki spilað með íslenska landsliðinu í knattspyrnu á þessum vetri.