Innlent

Stranda­menn fagna hækkandi sól

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Falleg mynd af Hólmavík, sem Jón Jónsson tók. Hátíðn "Vetrarsól á Ströndum" fer fram alla helgina.
Falleg mynd af Hólmavík, sem Jón Jónsson tók. Hátíðn "Vetrarsól á Ströndum" fer fram alla helgina. Jón Jónsson

Strandamenn ætla að fagna því um helgina að þeir séu farnir að sjá sólina rísa með vaxandi ljósi. Það gera þeir með söng, kveðskap, sögum, spjalli og almennu æðruleysi alla helgina.

Hátíð helgarinnar kallast „Vetrarsól á Ströndum“ en þetta er fjórða árið í röð, sem hátíðin er haldin. Hátíðin er haldin af Arnkötlu – lista- og menningarfélagi með styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Dagrúnu Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur og formaður Arnkötlu, fer fyrir hátíðinni. En út á hvað gengur hátíðin?

„Hún gengur út á það að sólin sé farin að hækka aftur á lofti og brjóta upp janúar og gera eitthvað skemmtilegt saman. Það eru alls konar viðburðir fyrir fólk á öllum aldri. Við erum með til dæmis kvöldvöku í kvöld, laugardagskvöld þar sem verður alls konar fróðleikur og skemmtun og einhver tónlistaratriði í beinu streymi,“ segir Dagrún Ósk.

Dagrúnu Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur og formaður Arnkötlu, lista og menningarfélags á Ströndum, sem stendur fyrir hátíðinni.Jón Jónsson

Í gærkvöldi var Svavar Knútur til dæmis með tónleika í beinu streymi og í dag verður boðið upp á skemmtilegan spurningaleik líka í beinu streymi.

Hægt er að finna alla dagskrá helgarinnar á Facebook undir „Vetrarsól á Ströndum“ og þar eru líka viðburðirnir sem eru í beini streymi auglýstir sérstaklega.

„Svo eru við með alls konar sem fólk getur gert sjálft þegar því hentar, útibingó fyrir fjölskylduna, ljósmyndaleik og svo eru frábær tilboð á veitingastöðunum, sem eru á Hólmavík og Strandabyggð, Kaffi Rís, Kaffi Galdri og Sauðfjársetrinu,“ bætir Dagrún Ósk við.

En eru strandamenn almennt létt og skemmtilegt fólk?

„Já, ég myndi segja það, Strandamenn eru upp til hópa létt og skemmtilegt og jákvætt fólk. Hugmyndaríkt líka ætla ég að leyfa mér að segja,“ segir Dagrún Ósk, spennt fyrir hátíð helgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×