Skoðun

Ný­sköpunar­landið Reykja­vík

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Ofurtrú á nágrannalöndin og hvað þau gera í sínum málum á það til að byrgja íslenskum stjórnmálamönnum sýn. Minnimáttarkennd Íslendinga hefur það í för með sér að við eltum aðra en tökum sjaldnast af skarið. Fyrir vikið er Ísland eftirbátur annarra þjóða að mörgu leyti. Ekki síst þegar kemur að tækni og tækninýjungum. Þungt regluverk og íhaldssamir stjórnmálaflokkar sem neita að einfalda hlutina gera það að verkum að hér á landi er erfitt að halda úti virkri nýsköpun. Við hreyfum okkur hægt í umhverfi sem þýtur framhjá.

Tækin okkar tala ekki íslensku og næsta vinsæla streymisveita sem stofnuð verður í ár kemur kannski til Íslands eftir fimm ár, eða alls ekki. Við erum eftir á en gætum orðið framtíðarlandið … eða kannski bara framtíðarborgin.

Bylting er framundan í tæknigeiranum og á næstu árum verða borgir heimsins að vera móttækilegar fyrir þeim breytingum sem munu eiga sér stað. Ef íslensk stjórnvöld ætla sér að sitja í sínum íhaldssama hestvagni þá getur Reykjavíkurborg engu að síður opnað hjarta sitt þeim fyrirtækjum sem skapa munu framtíðina.

Með réttum ákvörðunum, einfaldara regluverki og stjórnmálaflokki sem er tilbúinn að vinna hratt þá getur Reykjavík orðið nýsköpunarborg heimsins. Ég hef fundið fyrir því innan Samfylkingarinnar að það er vilji til að takast á við þessar hröðu breytingar sem eiga sér stað í heiminum með því að nútímavæða ekki borgina heldur framtíðavæða. Í Reykjavík mega alþjóðleg tæknifyrirtæki finna upp framtíðina. Ef það er eitthvað sem heimsfaraldur hefur kennt okkur þá er það að auðvelt er að vinna saman á milli landa með fjarfundabúnaði.

Þrátt fyrir að íhaldsöflin sem stýra landinu vilji ekki gera Ísland að nýsköpunarlandi þá er ekkert til fyrirstöðu hjá Reykjavík. Heimsborgin Reykjavík sem verður fimm árum á undan. Ég mun gera mitt í baráttunni til þess að einfalda regluverkið og gera borgina að ákjósanlegum stað fyrir fyrirtæki sem starfa í nýsköpun, hvort sem þau eru íslensk eða ekki. Af mínum samtölum við fólk í tæknigeiranum þá bíða alþjóðleg fyrirtæki í röðum eftir fámennri borg þar sem hægt er að finna upp framtíðina. Reykjavík hefur lausnina og þetta er leiðin.

Kjósum Samfylkinguna í vor til þess að Reykjavík verði fremst í röð þegar kemur að alþjóðlegri nýsköpun.

Höfundur er formaður Afstöðu og sækist eftir sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×