Erlent

Breivik fluttur í annað fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Umsók Anders Behring Breivik um reynslulausn var tekin fyrir í Þelamerkurfangelsinu í síðasta mánuði.
Umsók Anders Behring Breivik um reynslulausn var tekin fyrir í Þelamerkurfangelsinu í síðasta mánuði. EPA

Norski fjöldamorðinginn og hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik verður fluttur úr Þelamerkurfangelsinu og í Hringaríkisfangelsið innan skamms.

Breivik var árið 2012 dæmdur í 21 árs fangelsisvist fyrir að myrða 77 manneskjur í sprengingu í Osló og skotárás í Útey. Þó er hægt að framlengja fangelsisvistina þannig að hann sitji inni það sem eftir er ævinnar.

Í tilkynningu frá norskum fangelsisyfirvöldum segir að ástæða flutningsins sé að fanginn hafi afplánað dóm sinn á sömu öryggisdeild í mörg ár og því sé það viðeigandi að veita fanganum nýtt umhverfi.

Ennfremur segir að flutningurinn hafi verið til umræðu í lengri tíma, en nákvæm tímasetning flutningsins verður ekki gefin upp.

Hringaríkisfangelsið er að finna um fimmtíu kílómetra norðvestur af höfuðborginni Osló og er líkt og Þelamerkurfangelsið með öryggisdeild fyrir sérstaklega hættulega fanga.

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að Breivik hafi verið neitað um reynslulausn, en umsóknin hans var tekin fyrir í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×