„Loðnan er komin upp á grunnið og það er mokveiði þarna,“ segir Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða hjá Skinney-Þinganesi á Hornafirði. Tvö skipa fyrirtækisins, Ásgrímur Halldórsson og Jóna Eðvalds, eru á svæðinu við strönd Suðausturlands.
„Þau eru bæði búin að kasta tvisvar og fengu 500 tonn hvort í hvoru kasti.“
Skipin er aðeins tvær til þrjár sjómílur frá landi, innan við Hrollaugseyjar, á svæðinu milli Jökulsárlóns og Hala í Suðursveit.
„Hún er búin að þéttast í torfu og komin á hefðbundna gönguslóð. Þetta er sennilega fyrsta gangan, sú sem lengst er gengin,“ segir Ásgeir en til þessa hefur loðnan verið dreifð og veiðst einkum undan Norðausturlandi og Austfjörðum.
Ástand loðnunnar bendir jafnframt til þess að hún nálgist óðum sitt verðmætasta form og að áherslan muni núna færast úr bræðslu yfir í frystingu til manneldis.
„Þetta er mjög góð og falleg loðna. Hún er komin með 13 prósenta hrognafyllingu, orðin hæf í frystingu fyrir markaði í Austur-Evrópu. Fyrir Japansmarkað þarf hrognafylling að verða 15-16 prósent, sem næst eftir 4-5 daga," segir Ásgeir.
Auk Hornafjarðarskipanna eru á svæðinu Heimaey VE, Álsey VE, Kap VE, Börkur NK, Bjarni Ólafsson AK og Hákon EA og færeysku skipin Högaberg og Nordborg.
Guðmundur Borgar, matsveinn á Ásgrími Halldórssyni, tók myndirnar á miðunum í dag.
Þess má geta að loðnuveiðar hér við land hófust fyrst frá Hornafirði, eins og fram kom í þættinum Um land allt í fyrra. Þáttinn í heild má nálgast á Stöð 2+ en hér má sjá kafla: