Við gildandi reglur verða bólusettir Íslendingar að fara í sýnatöku innan við 48 klukkustundum eftir komuna til landsins. Bólusettir ferðamenn verða þá að framvísa neikvæðu PCR-prófi áður en þeir fara um borð í flugvél eða skip á leið til landsins.
Óbólusettir verða hins vegar að fara í fimm daga sóttkví við komuna til landsins. Þessar reglur renna út á mánudaginn eftir slétta viku, þann 28. febrúar.
Starfshópur á vegum fjögurra ráðuneyta, forsætisráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis hefur undanfarið unnið að tillögum um fyrirkomulag á landamærum fyrir vorið. Sá hópur hefur skilað af sér og verða niðurstöður hans til umræðu á ríkisstjórnarfundi á morgun.
Hér er ekki um að ræða tillögur í formi minnisblaðs frá sóttvarnalækni en hann hefur ekki komið að vinnu hópsins. Í niðurstöðunum eru nokkrar leiðir teknar til umfjöllunar.
Heimildir fréttastofu herma að það verði líklegasta lendingin að afnema allar helstu takmarkanir við landamærin en ríkisstjórnin muni ræða það hvort halda eigi takmörkunum fyrir óbólusetta.
Það myndi þá duga að framvísa gildu bólusetningarvottorði til að komast inn í landið án þess að fara í PCR-próf í næstu viku.