Handbolti

Hættir með HK eftir tíma­bilið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Halldór Harri ræðir við sínar stelpur en hann mun hætta sem þjálfari HK að tímabilinu loknu.
Halldór Harri ræðir við sínar stelpur en hann mun hætta sem þjálfari HK að tímabilinu loknu. vísir/bára

Halldór Harri Kristjánsson mun hætta sem þjálfari kvennaliðs HK í handbolta að tímabilinu loknu.

Þetta staðfesti Halldór Harri í viðtali við Handbolti.is fyrr í dag. Þar kemur fram að hann sé einfaldlega á leið í pásu eftir 18 ár í þjálfun.

„Ég ákvað i síðasta mánuði að nýta uppsagnarákvæði í samningi mínum við HK og hætti þjálfun meistaraflokks kvenna í vor eftir fjögur ár með liðið.“

Ætlar ekki í þjálfun annarsstaðar

„Ég ákvað þetta ekki vegna þess að ég ætla að taka við þjálfun annarstaðar. Mig langar bara að kúpla mig aðeins út úr hringiðunni eftir átján ár í þjálfun og taka mér frí frá þjálfun. Svo getur líka verið gott að hleypa öðrum að,“ sagði Halldór Harri en hann hefur þjálfað HK undanfarin fjögur ár. Þar áður stýrði hann Stjörnunni og Haukum.

Gæti verið á kústinum í Kórnum

Halldór Harri segist hafa nóg að gera í aðalstarfi sínu ásamt því að það sé örugglega kominn tími á að hann sinni eiginkonu sinni og börnum í meiri mæli en áður.

„Kannski verður maður orðinn óþreyjufullur að komast í þjálfun aftur þegar kemur inn á næsta tímabil. Kannski verð ég bara á kústinum á leikjum í Kórnum næsta vetur, hver veit?“ sagði Halldór Harri að endingu við Handbolti.is en hann á heima í nágrenni við Kórinn og börnin hans æfa með HK.

HK situr sem stendur í 7. sæti Olís-deildar kvenna með 9 stig að loknum 14 umferðum.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×