Ráðherra fundaði með flóttamannanefnd vegna ástandsins í Úkraínu fyrr í dag. Efni fundarins var að ræða stöðu þeirra sem neyðst hafa þurft að yfirgefa heimili sín og flýja til nágrannaríkja í kjölfar innrásar Rússlands í landið.
Hann fól í kjölfarið flóttamannanefnd að fylgjast með stöðunni í samráði við Norðurlönd, önnur Evrópuríki og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Í nefndinni sitja meðal annars fulltrúar félags- og vinnumarkaðsráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra, samkvæmt tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Guðmundur Ingi fjallar um málið á Facebook síðu sinni og segir mikilvægt að Íslendingar hugi strax að undirbúningi fyrir mögulega móttöku fólks frá Úkraínu hingað til lands. Að minnsta kosti 100 þúsund manns hafi þegar flúið heimili sín og talið sé að fjöldi fólks á flótta geti farið upp í fimm milljónir.