Rauði krossinn á Íslandi hrinti af stað neyðarsöfnun í síðustu viku vegna átakanna í Úkraínu. Framkvæmdastjóri rauða krossins segir að íslenskur almenningur hafi brugðist vel við söfnuninni en vel yfir 14 milljónir hafa safnast á fáeinum dögum.
Fjármunirnir fara í það að styðja við Úkraínubúa á flótta.
„Ýmist eru þeir á flótta innan Úkraínu eða eru komnir yfir landamærin og það ríkir bara mjög mikil neyð hjá fólkinu. En það sem safnast í neyðarsöfnuninni verður nýtt til þess að veita mannúðaraðstoð og neyðarþjónustu og það þarf að tryggja aðgengi að mat, vatni og heilbrigðisþjónustu,“ sagði Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.
Þeim sem vilja leggja söfnuninni lið er bent á að fara inn á heimasíðu Rauða krossins, rauðikrossinn.is.
Þá er ákall er eftir sendifulltrúum í allri hreyfingunni.
„Það er verið að senda fólk til nágrannaríkja Úkraínu og inn til Úkraínu til þess að aðstoða.“
Þannig að við munum senda einhverja héðan?
„Já það eru sendifulltrúar á okkar listum sem munu bjóða sig fram og svo er fólk valið í störfin eins og henta þykir.“