Innlent

Sá sem liggur undir grun laus úr haldi lögreglu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi í Auðbrekku í gær.
Frá vettvangi í Auðbrekku í gær. Vísir/Vilhelm

Karlmaður sem var handtekinn í þágu rannsóknar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á bruna í húsi við Auðbrekku í Kópavogi í fyrrinótt er laus úr haldi. Húsið var ekki samþykkt íbúðahúsnæði.

Í gær var tæknideild lögreglu við eldsupptakarannsókn á vettvangi, en niðurstöður hennar liggja ekki fyrir. Lögreglan segist í tilkynningu ekki geta veitt frekari upplýsingar.

Húsnæðið stóð í ljósum logum þegar slökkvilið bar að garði um klukkan þrjú aðfaranótt fimmtudagst. Fjórtán voru í húsinu á tveimur hæðum og fóru reykkafarar inn til að ganga úr skugga um að allir hefðu komist óhultir út.

Allir komust út af sjálfsdáðum og var þeim útvegað skjól í strætisvagni áður en Rauði krossinn útvegaði þeim húsnæði.


Tengdar fréttir

Handtekinn vegna brunans í Auðbrekku

Einn hefur verið handtekinn í tengslum við eldsvoðann í íbúðarhúsnæði við Auðbrekku í Kópavogi í nótt, grunaður um íkveikju. Þetta staðfestir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Kópavogi.

Eldsvoði í Auðbrekku

Mikill eldur kom upp í íbúðarhúsnæði að Auðbrekku fjögur í Kópavogi um klukkan þrjú í nótt. Fjórtán manns voru í húsnæðinu á tveimur hæðum og sluppu allir út. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×