Víða má nú sjá úkraínska fánanum flaggað. Bæði fyrir utan fyrirtæki og stofnanir og einfaldlega í görðum fólks sem vill sýna Úkraínumönnum samstöðu.
Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda er einn þeirra sem hefur flaggað en hann hvetur eigendur fánastanga til þess að kaupa fánann og flagga í nafni samstöðu.
Gerð og stærð skiptir ekki máli
Í myndbandinu má sjá prentun á úkraínska fánanum hjá Fánasmiðjunni en starfsmenn þar á bæ hafa vart undan við að prenta fánann og límmiða. Eftirspurnin er gríðarleg og skiptir stærð og form ekki máli.
„Bara allar gerðir og tegundir, borðfánar, veifur, fánar, límmiðar, nefndu það. Það vilja allir fá eitthvað tengt Úkraínu,“ sagði Örn Smári Gíslason, rekstrarstjóri Fánasmiðjunnar.
Já og Fánagerðin framleiðir nú tugi úkraínskra fána á dag og sendir um allt land. Örn segir að fyrirtæki og stofnanir séu dugleg í pöntunum en að eftirspurnin hafi komið á óvart.
„Af því að þetta er rólegasti tíminn á árinu. Menn eru ekki mikið að panta fána núna en það er búið að vera fullt að gera í að sauma og prenta.“
Hluti af ágóðanum til góðgerðamála
Hluti af ágóðanum muni renna til góðgerðarmála.
„Ætlum að setja hluta af söluverðinu í að styðja. Eigum von á að flóttamenn komi hingað og ætlum að reyna að styðja við þá þegar þeir koma hingað.“
Hann hvetur fólk til þess að flagga og sýna samstöðu.
„Hvetja menn til að styðja við Úkraínu, það er númer eitt tvö og þrjú núna. Maður horfir til hryllings hvernig ástandið þarna er og hvernig yfirgangurinn er hjá Rússum.