Skoðun

Déjà vu – hafa þau ekkert lært?

Kristrún Frostadóttir skrifar

Ríkisstjórn leidd af jafnaðarmönnum í Svíþjóð tilkynnti rétt í þessu mótvægisaðgerðir fyrir heimilin í landinu vegna verðhækkana. Fordæmin hrannast nú upp; Bretland, Frakkland, Noregur, Svíþjóð. Úrræði vegna orkuverðshækkana, bensíngreiðslur sem taka mið af búsetu, aukinn afsláttur vegna rafmagnsbíla, húsnæðisstuðningur, tilfærslukerfin nýtt.

Ég fæ déjà vu – sama staðan er nú komin upp og fyrir 2 árum síðan þar sem öll nágrannalönd okkar kynntu hratt og örugglega mótvægisaðgerðir vegna COVID en hér var fólki og minni fyrirtækjum beint í skuldsetningu, fyrirtækjum borgað fyrir að segja fólki upp og alvöru aðgerðir komu ekki fram fyrr en mörgum mánuðum of seint. Í millitíðinni byggðist upp gríðarlegt ójafnvægi í kerfinu. Ójafnvægi sem almenningur líður fyrir í dag í formi gríðarlegra húsnæðisverðshækkana, þar sem fjármagni var dreift með mjög ómarkvissum hætti í gegnum bankakerfið. Allt gert til að fría sig pólitískri ábyrgð á ákvörðunum og afleiðingum.

Hér leggst nú allt í sömu áttina hvað varðar verðlag. Bensín, húsnæði, innfluttar vörur. En ekkert heyrist frá stjórnvöldum. Engin þingmál koma um mótvægisaðgerðir frá ríkisstjórninni. Tillögu okkar í Samfylkingunni, sem er studd af fleiri flokkum í minnihlutanum, hefur verið tekið fálega af stjórnarliðum. Vitnað er til stýrihópa í húsnæðismálum sem skila mögulega langtímaáætlunum með vorinu. Á meðan líður hver vikan á eftir annarri þar sem verðbólguþrýstingur eykst án aðgerða.

Þetta er ekkert annað en pólitísk ákvarðanafælni, pólitískur verkkvíði. Sem bitnar á almenningi í landinu. Hið kaldhæðnislega er að þetta mun líka bitna á ríkissjóði þegar líður á árið ef hér fer af stað víxlverkun launa- og verðlags því ríkisstjórnin skilur ekki hvaða hlutverki ríkissjóður hefur að gegna í velferðarsamfélagi. Skilur ekki mikilvægi þess að fara í sértækar aðgerðir til að draga úr þrýstingi og þenslu síðar meir. Ef ekkert er að gert, verða afleiðingar þessa aðgerðarleysis þær sömu og fyrir 2 árum síðan: aukið ójafnvægi í efnahagslífinu, aukinn verðbólguþrýstingur og aukinn kostnaður ríkissjóðs fyrir vikið.

Hafa þau ekkert lært?

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×