Körfubolti

Varð margfaldur meistari í tveimur íþróttagreinum um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísold Sævarsdóttir með verðlaun sín fyrir að vera besti leikmaður bikarúrslitaleiks 10. flokks kvenna. Hún vann alls átta önnur verðlaun um helgina.
Ísold Sævarsdóttir með verðlaun sín fyrir að vera besti leikmaður bikarúrslitaleiks 10. flokks kvenna. Hún vann alls átta önnur verðlaun um helgina. KKÍ/Bára Dröfn

Það er óhætt að segja að það hafi verið mikið að gera hjá Ísold Sævarsdóttur um helgina. Þessi fimmtán ára stelpa safnaði þá að sér titlum í tveimur íþróttagreinum.

Ísold er nefnilega bráðefnileg bæði í körfubolta sem og í frjálsum íþróttum. Um helgina hitti svo á að það voru bæði bikarúrslit hjá yngri flokkum körfuboltans sem og Meistaramót Íslands hjá 15 til 22 ára.

Ísold er í Stjörnunni í körfuboltanum en keppir með FH í frjálsum íþróttum.

Hún varð tvöfaldur bikarmeistari með Stjörnunni í körfuboltanum, fyrst í 9. flokki á laugardeginum og svo í 10. flokknum á sunnudeginum.

Í 9. flokks leiknum þar sem Stjarnan vann Keflavík í úrslitaleiknum var Ísold með 12 stig, 6 fráköst og 3 stolna bolta.

Ísold var síðan kosin besti leikmaður leiksins í 10. flokknum þar sem Stjarnan vann KR í úrslitaleik. Hún var þá með 18 stig, 8 stolna bolta og 6 stoðsendingar á þeim rúmu 19 mínútum sem hún spilaði.

Ísold hafði einnig spilað með stúlknaflokki á föstudagskvöldinu þegar Stjarnan tapaði naumlega á móti Fjölni. Í þeim leik var hún með 14 stig, 9 fráköst, 6 stolna bolta og 4 stoðsendingar.

Ísold safnaði líka gullverðlaunum á meistaramótinu í frjálsum íþróttum í hennar aldursflokki.

Ísold vann alls fern gullverðlaun og ein silfurverðlaun. Hún varð Íslandsmeistari stúlkna í 60 metra grindahlaupi, stangarstökki, þrístökki og 300 metra hlaupi. Hún fékk einnig silfurverðlaun í hástökki.

Í 300 metra hlaupinu kom Ísold í mark á nýju mótsmeti þegar hún hljóp á 42,12 sekúndum.

Ísold vann því samtals átta verðlaun um helgina, sex gullverðlaun og tvö silfurverðlaun.

HSK/Selfoss varð Íslandsmeistarar félagsliða á Meistaramót Íslands 15-22 ára. Þau hlutu samtals 277,5 stig, sigruðu einn aldursflokk og unnu tíu gullverðlaun. Í öðru sæti var FH með 199 stig og Ármann í því þriðja með 192,5 stig.

  • Fimm mótsmet voru sett um helgina:
  • Kristján Viggó Sigfinnsson (Ármann) Hástökk / 2,08 m / 18-19 ára
  • Daníel Ingi Egilsson (FH) Þrístökk / 14,51 m / 20-22 ára
  • Thomas Ari Arnarsson (Ármann) 600m / 1:32,95 mín. / 15 ára
  • Ásta Dís Ingimarsdóttir (HSK/Selfoss) 600m / 1:55,38 mín. / 15 ára
  • Ísold Sævarsdóttir (FH) 300m / 42,12 sek. / 15 ára



Fleiri fréttir

Sjá meira


×