Í skeyti frá lögreglu segir að skömmu fyrir miðnætti hafi verið tilkynnt um mann með ógnandi hegðun í miðborginni þar sem einn maður var handtekinn og gistir hann nú fangageymslu.
Nokkru síðar var tilkynnt um hávært píp-hljóð sem hélt vöku fyrir íbúum í miðborginni. Við athugun kom í ljós að hljóðið hafi komið frá rafmagnshjóli. Varð aftur hljótt þegar búið var að aftengja rafgeyminn.
Í skeyti frá lögreglunni segir að skömmu eftir miðnætti hafi verið tilkynnt um slagsmál á Laugavegi en ekkert hafi verið að sjá þegar lögreglu hafi borið að garði. Þá var lögregla einnig kölluð út vegna manns í Grafarholti sem neitaði að greiða reikning eftir leigubílaferð.
Um fjögur leytið í nótt var tilkynnt um líkamsárás miðsvæðis í Reykjavík og handtók lögregla einn vegna hennar. Segir að málið sé í rannsókn en ekki er vitað um meiðsli þess sem ráðist var á.
Skömmu fyrir klukkan tíu í morgun var svo tilkynnt um ógnandi mann í miðborg Reykjavíkur og var málið afgreitt á vettvangi.