Töluvert var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í blíðviðrinu í dag ef marka má dagbókarfærslu lögreglu.
Lögreglu barst meðal annars hjálparkall frá borgara sem rankaði við sér í strætisvagni en vagninn var mannlaus á endastöð og farþeginn læstur inni. Starfsmenn á vegum Strætó mættu á svæðið og hleyptu farþeganum út.
Þá var tilkynnt um þjófnað af hóteli í miðborginni fyrr í dag og lögregla fór einnig í útkall í verslun miðsvæðis vegna einstaklinga í annarlegu ástandi. Einn var handtekinn í Hafnarfirði vegna ölvunar og ósæmilegrar hegðunar í garð samborgara, eins og segir í dagbókarfærslu lögreglunnar.
Grannt var fylgst með umferð og tveir ökumenn voru staðnir að akstri án ökuréttinda. Þrír voru stöðvaðir vegna farsímanotkunar í akstri og nokkrir voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur. Teknar voru stikkprufur af ökumönnum víða en enginn reyndist undir áhrifum áfengis.