Innlent

Hátt verðskilti Orkunnar á Nesinu féll

Atli Ísleifsson skrifar
Verðskiltið hafnaði á steyptum, lágum vegg.
Verðskiltið hafnaði á steyptum, lágum vegg. Iris Gústafsdóttir

Stærðarinnar skilti Orkunnar við Austurströnd á Seltjarnarnesi, sem sýndi lítraverðið á bensíni og dísil, fór á hliðina í hvassviðrinu sem gekk yfir suðvesturhornið í fyrrinótt.

Ólafur Þór Jóhannesson, forstjóri Skeljungs, segir að félagið hafi fengið ábendingu um málið snemma í gærmorgun. „Við brugðumst strax við í kjölfarið og er nú búið að fjarlægja skiltið.“

Hann segir að sem betur fer hafi ekki orðið tjón á munum eða fólki þegar skiltin fauk. Reiknað sé með að nýtt verðskilti verði sett upp á næstunni.

Iris Gústafsdóttir, íbúi á Seltjarnarnesi, náði myndum af skiltinu þar sem það lá á hliðinni eftir að hafa fokið um koll.

Umræða um málið skapaðist í Facebook-hópnum Íbúar á Seltjarnarnesi.

„Ótrúlega ósjarmerandi aðkoma inn í bæinn að vera með risastóra auglýsingalóð fyrir bensínstöð. Vonandi verður gert eitthvað að viti við þetta svæði og það byggt upp,“ segir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir lögmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi.

Aðrir eru á léttari nótum. „Skiltið hefur greinilega ekki verið byggt til að sýna svona hátt bensínverð,“ segir Bjarni Torfi en bensínverð hér á landi hefur hækkað verulega undanfarnar vikur eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Forstjóri Skeljungs segir að sem betur fer hafi ekki orðið tjón á fólki eða munum.Iris Gústafsdóttir

Búið er að fjarlægja skiltið.Iris Gústafsdóttir

Iris Gústafsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×