Viðskipti erlent

Musk tekur ekki sæti í stjórn Twitter

Atli Ísleifsson skrifar
Elon Musk er ríkasti maður heims og eigandi SpaceX og Tesla.
Elon Musk er ríkasti maður heims og eigandi SpaceX og Tesla. AP

Bandaríski auðjöfurinn Elon Musk hefur ákveðið að taka ekki sæti í stjórn samfélagsmiðlarisans Twitter. Parag Agrawal, framkvæmdastjóri Twitter, greindi frá þessu í dag, en Elon Musk varð á dögunum stærsti einstaki hluthafinn í Twitter eftir að hafa keypt 9,2 prósenta hlut.

BBC segir frá því að til hafi staðið að Musk, sem er ríkasti maður heims og eigandi SpaceX og Tesla, tæki sæti í stjórninni síðasta laugardag, en Agrawal greindi svo frá því í dag að það myndi ekki gerast eftir allt saman.

Agrawal sagði að þrátt fyrir það myndi stjórn Twitter áfram hlusta á það sem Musk hefði að segja um félagið, þrátt fyrir að hann sæti ekki formlega í sjálfri stjórninni. Agrawal segir þetta fyrirkomulag vera fyrir bestu.

Musk keypti um 73 milljónir hluta í Twitter fyrir um 2,9 milljarða Bandaríkjadala í upphafi síðustu viku. Á hann nú 9,2 prósenta hlut, eða um fjórum sinnum meira en Jack Dorsey, stofnandi miðilsins. 

Bréf í Twitter hækkuðu um 27 prósent síðasta mánudag, eftir að tilkynnt var um kaup Musks í félaginu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×