Leitin að Gabríel hefur ekki enn borið árangur en hann flúði úr Héraðsdómi Reykjavíkur um sjö leytið í gær.
Kristján Helgi Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir lögreglu hafa fengið þó nokkrar ábendingar um hvar hann gæti verið.
„Við erum búin að fara út um allan bæ að fylgja eftir þeim vísbendingum sem við höfum fengið,“ segir Kristján en leit stendur enn yfir.
Sérsveitin fór inn í strætisvagn við leitina
RÚV greinir frá því að sérsveitin hafi tekið ungan mann úr vagninum en hann hafi þó ekki verið handtekinn.
Að því er kemur fram í frétt Fréttablaðsins var um að ræða sextán ára ungling sem var dökkur á hörund líkt og Gabríel.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, staðfestir í samtali við fréttastofu að sérsveitin hafi farið inn í vagn við BSÍ um klukkan 13:20.
Hann hafði þó ekki frekari upplýsingar um málið en hann heyrði ekki sjálfur af málinu fyrr en um fjögur leytið.
„Við eigum eftir að skoða þetta betur innanhúss,“ segir Guðmundur Heiðar.