Virgill Scheving Einarsson, staðarhaldari á Vatnsleysuströnd, segir súluna hafa haldið mest til við bæinn Skjaldarkot en hún virðist að hans sögn vængbrotin.
Hann greinir frá því í samtali við fréttastofu að það hafi fyrst verið hringt í yfirvöld vegna súlunnar í gær en nú síðast í morgun, en það er einmitt það sem Matvælastofnun hefur mælt með að fólk geri verði það vart við veika fugla.
„Þeir bera það fyrir sig í Keflavík að þeir séu hræddir að snerta hann, að hann sé með fuglaflensuna,“ segir Virgill um svör lögreglunnar í tengslum við málið. „Svo er búið að vera lokað í dag, engan hægt að ná, og fuglinn er bara hérna.“
Fuglaflensa hefur komið upp í nokkrum viltum fuglum, þar á meðal súlu á Reykjanesi, en Matvælastofnun hefur biðlað til fólks að láta veika fugla vera.
Virgill segir að fuglinn virðist hraustur, fyrir utan vængbrotið, og því ætti að vera hægt að bjarga honum.
„Ég hef ekki snert hann en hann er að koma hérna heim að bæjunum en hann er að reyna að komast út á sjó,“ segir hann.
Hann bindur vonir við að einhver bjargi fuglinum, mögulega Húsdýragarðurinn.