Lögreglu barst fjöldi ábendinga frá almenningi við leitina að hinum tvítuga Gabríel Douane Boama, sem var handtekinn ásamt fimm öðrum í sumarbústað austur af höfuðborginni í morgun, og hafði í tvígang afskipti af sextán ára pilti, alls ótengdum málinu. Pilturinn er dökkur á hörund eins og Gabríel og sættu aðgerðir lögreglu gagnrýni.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir málið óheppilegt og fyrst og fremst sorglegt fyrir piltinn.
„Ég mun ræða þetta við yfirmenn lögreglu. Hef reyndar átt við þá óformlegt spjall um helgina og fara yfir þessi mál og hvaða ráðstafana er verið að grípa til, og síðan er auðvitað kærunefnd sem er hægt að fara með mál til sem hefur með eftirlit með störfum lögreglu að gera,“ segir Jón.
„Ég er alveg sannfærður um það að lögreglan lærir á þessu eins og við öll og reynir að setja það í kistuna sína. En það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir þeim erfiðu aðstæðum sem lögreglan var í í þessu tilfelli.“
Það sé eðlilegt að umræða um kynþáttafordóma spretti upp vegna málsins.
„En ég hef enga trú á því að það sé nein rót af því innan lögreglunnar. Ég bara hafna því.“