Handbolti

Silfurdrengur á nýjum slóðum: „Kom á óvart hvað var gaman að gefa, ekki bara þiggja“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Róbert Gunnarsson, einn leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, er nýr þjálfari Gróttu.
Róbert Gunnarsson, einn leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, er nýr þjálfari Gróttu. stöð 2

Róbert Gunnarsson þreytir frumraun sína sem aðalþjálfari í Olís-deild karla á næsta tímabili. Hann var ráðinn þjálfari Gróttu í síðustu viku. Honum líst vel á verkefnið.

Á föstudaginn var greint frá því að Róbert hefði tekið við Gróttu af Arnari Daða Arnarssyni sem hætti óvænt eftir þriggja ára starf á Seltjarnarnesinu. Róbert þjálfaði yngri lið Århus í Danmörku áður en hann flutti aftur heim og er þjálfari U-20 árs landsliðs Íslands ásamt Einari Andra Einarssyni. Hann hefur hins vegar aldrei áður þjálfað félagslið.

„Þetta er virkilega krefjandi og spennandi verkefni. Ég er stoltur að þeir hafi leitað til mín. Það komu upp aðstæður sem þurfti að bregðast við. Ég sé margt í þessu liði og tek við góðu búi þannig við lítum björtum augum á framtíðina,“ sagði Róbert í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum.

Klippa: Viðtal við Róbert

En hver eru markmið Róberts með Gróttu?

„Fyrsta markmið er að halda okkur uppi, markmið tvö að komast í úrslitakeppnina og markmið þrjú að vinna deildina. Er það ekki svona sem maður gerir þetta?“ svaraði Róbert léttur.

Hann vonast til að geta miðlað af þeirri miklu reynslu sem hann býr yfir. „Ég hef fengið aðeins að prófa þetta og þekki þetta aðeins. Það er alltaf gaman að miðla af reynslu og það er það sem kallar á mann í þjálfun. Það kom á óvart hvað var gaman að gefa, ekki bara þiggja. Það er frábært og ég vona að ég komi því frá mér til strákanna.“

Allt viðtalið við Róbert má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×