Viðskipti innlent

Kalla inn nærri því milljón Mercedes-bíla

Kjartan Kjartansson skrifar
Mercedes-Benz ML frá 2015.
Mercedes-Benz ML frá 2015. Vísir/Getty

Þýski bílaframleiðandinn ætlar að kalla inn tæplega milljón eldri bifreiða um allan heim vegna þess að bremsubúnaður þeirra kunni að hafa orðið fyrir mikilli tæringu. Hætta sé á að bremsurnar virki ekki sem skyldi við vissar aðstæður.

Jepplingar og smárútur af gerðunum ML og GL sem voru framleiddar á árunum 2004 til 2015 verða kallaðar inn vegna gallans. Alls ætlar Mercedez-Benz að hafa samband við eigendur 993.407 bifreiða, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu sagði að í undantekningartilfellum gæti tæringin leitt til þess að bíllinn hægði ekki á sér sem skyldi og slysahætta ykist, sérstaklega þegar bremsað er sérstaklega skarpt og fast.

Farið verðir yfir bílina og hlutum skipt út ef þurfa þykir. Innköllunin á að hefjast strax.

Þetta er í annað skiptið á skömmum tíma sem Mercedes þarf að kalla inn um milljón bíla. Síðast gerðist það í febrúar í fyrra vegna galla í neyðarsendi sem allir bílar hafa þurft að hafa í Evrópusambandsríkjum eftir 2018.

Í því tilfelli var um hugbúnaðargalla að ræða sem olli því að neyðarsendirinn gat sent ranga staðsetningu til viðbragðsaðila þegar bíll lenti í óhappi. Því gat Mercedes leyst vandamálið að mestu leyti með hugbúnaðaruppfærslu sem var sótt um þráðlaust net.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×