Ratsjárstöðin mun treysta eftirlit NATO með loftrýminu milli Íslands, Noregs og Bretlands og er gert ráð fyrir að hún hafi 3-400 kílómetra drægni, að því er fram kemur í fréttatilkynningu danska varnamálaráðuneytisins. Þar segir að 390 milljónir danskra króna, andvirði 7,2 milljarða íslenskra króna, hafi verið teknar frá til uppsetningar ratsjárinnar.

Stöðin verður reist á grunni eldri stöðvar, sem tekin var úr notkun árið 2007. Við það myndaðist gat í eftirlitskeðju Atlantshafsbandalagsins á Norður-Atlantshafi, sem rússneskar herflugvélar gátu komist óséðar í gegnum. Ratsjárstöð var upphaflega reist á Sornfelli á árunum upp úr 1960 í tengslum við uppsetningu samskonar stöðva á Íslandi, en henni fylgdi umdeild herstöð þar sem voru allt að tvöhundruð hermenn þegar mest var.
Á blaðamannafundi í dag sagði Jenis av Rana að hvorki vopn né hermenn myndu fylgja nýju ratsjárstöðinni í Færeyjum heldur yrði hún ómönnuð og fjarstýrð. Ratsjáin myndi jafnframt nýtast borgaralegu flugi og flugumferðarstjórar fá aðgang að ratsjárgögnum. Þá myndu færeyskir verktakar fá tækifæri til að bjóða í verkið til jafns við aðra.
„Viljayfirlýsingin undirstrikar það góða samstarf sem er milli Færeyja og Danmerkur í öryggismálum,“ segir varnarmálaráðherra Dana, Morten Bødskov, í fréttatilkynningu.
„Ratsjáin verður hluti af því eftirlitskerfi sem er með loftrými á svæðinu. Það mun gagnast samfélaginu á sama tíma og öryggi Evrópu er ógnað. Þetta sýnir að bæði Danmörk og Færeyjar taka ábyrgð á öryggi konungsríkisins,“ segir danski ráðherrann.