Körfubolti

Maywe­at­her vill líka sitt eigið lið í NBA deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Floyd Mayweather hefur aldrei tapað í hringnum.
Floyd Mayweather hefur aldrei tapað í hringnum. Cliff Hawkins/Getty Images

Nýverið opinberaði LeBron James, stórstjarna Los Angeles Lakers, að þegar skórnir færu á hilluna langaði honum að eiga NBA lið – og það í Las Vegas. Nú hefur glaumgosinn og hnefaleikakappinn fyrrverandi Floyd Mayweather tekið í sama streng.

Floyd er einn frægasti hnefaleikakappi samtímans og hefur þénað ótrúlega á ferli sínum. Alls keppti hann 50 sinnum á ferlinum og vann alla 50 bardagana, þar af 27 með rothöggi. Í dag er hann metinn á rúmlega 460 milljónir Bandaríkjadala.

„Ég er að vinna í því að eignast lið. Ég hef verið að tala við ákveðna aðila undanfarna sex mánuði. Það er eitthvað sem ég hef verið að vinna að á bakvið tjöldin en ég hef aldrei komið fram opinberlega og sagt það við fjölmiðla.“

Fyrr en nú það er. Floyd opnaði á umræðuna í hlaðvarpsþætti og ræddi þetta svo við fjölmiðla í vikunni er hann ræddi enn einn grínbardagann sem hann mun taka þátt í.

„Ég og teymið mitt höfum verið að vinna á bakvið tjöldin með NBA-deildinni. Ég get ekki sagt hvar eða hvenær en ég er að vinna í því að eignast lið.“

Hinn 45 ára gamli Floyd er búsettur í Las Vegas og hver veit nema hann og LeBron James sameini krafta sína í Syndaborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×