Handbolti

Grétar sá fjórði í efstu deild Frakklands

Sindri Sverrisson skrifar
Grétar Ari Guðjónsson færir sig upp um deild í Frakklandi.
Grétar Ari Guðjónsson færir sig upp um deild í Frakklandi. Cavigal Nice Handball

Nú er ljóst að hið minnsta fjórir íslenskir handboltamenn munu leika í efstu deild Frakklands á næstu leiktíð því markvörðurinn Grétar Ari Guðjónsson hefur samið við nýliða Sélestat.

Grétar var einn af mótherjum Sélestat í vetur því hann lék með Nice í næstefstu deild Frakklands. Hann átti mjög góða leiktíð í vetur og varði 342 skot, eða 34,2% skota sem hann fékk á sig.

Grétar samdi til tveggja ára við Sélestat og mun mynda markvarðapar hjá liðinu með Romain Mathias.

Grétar Ari, sem er 26 ára, hefur leikið sem atvinnumaður með Nice síðustu tvö tímabil en hann kom til Frakklands frá uppeldisfélagi sínu Haukum.

Áður var ljóst að annar markvörður, Viktor Gísli Hallgrímsson, og annar Haukamaður, Darri Aronsson, kæmu inn í efstu deild Frakklands. Viktor gengur í sumar til liðs við Nantes eftir að hafa orðið danskur meistari með GOG, og Darri kemur frá Haukum til nýliða Ivry.

Ivry komst upp um deild sem deildarmeistari næstefstu deildarinnar en Sélestat komst upp eftir að hafa unnið úrslitakeppni deildarinnar, þar sem liðið vann meðal annars Ivry í undanúrslitum.

Kristján Örn Kristjánsson er svo leikmaður PAUC og er með samning við félagið til ársins 2024, eftir að hafa komið sumarið 2020. Hann var á dögunum valinn í úrvalslið efstu deildar Frakklands eftir frábæra frammistöðu á nýafstaðinni leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×