Handbolti

Ítalía tryggði sér sigur gegn Íslandi með seinasta skoti leiksins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslenska U20 ára landsliðið í handbolta þurfti að sætta sig við súrt tap í dag.
Íslenska U20 ára landsliðið í handbolta þurfti að sætta sig við súrt tap í dag. HSÍ

Íslenska U20 ára landsliðið í handbolta þurfti að sætta sig við súrt eins marks tap er liðið mætti Ítalíu á EM U20 ára landsliða í Portúgal í dag. Lokatölur 27-26, en Ítalir skoruðu sigurmarkið á lokasekúndum leiksins eftir að íslenska liðið hafði unnið upp sex marka forskot.

Eftir jafnar upphafsmínútur náðu Ítalir yfirhöndinni. Þeir skoruðu fjögur mörk í röð og komust í 10-6, en mest náði ítalska liðið fimm marka forskoti í fyrri hálfleik. Staðan þegar flautað var til hálfleiks var 15-11, Ítölum í vil, og útlitið svart fyrir íslenska liðið.

Íslensku strákunum gekk bölvanlega að koma sér inn í leikinn lengst af í síðari hálfleik og Ítalir héldu fjögurra til sex marka forskoti þar til um tíu mínútur voru til leiksloka.

Markvörðurinn Adam Thorstensen var kom þá inn á völlinn og hann átti eftir að breyta leiknum. Adam varði eins og óður maður og þessari markvörslu fylgdu ódýr mörk. Íslenska liðið skorað sex mörk í röð og jafnaði leikinn í stöðunni 23-23.

Við tóku æsispennandi lokamínútur þar sem liðin skiptust á að skora. Andri Már Rúnarsson virtist vera að tryggja íslenska liðinu jafntefli er hann jafnaði metin þegar um hálf mínúta var til leiksloka, en Ítalir skoruðu seinasta mark þegar um fimm sekúndur voru eftir á klukkunni og niðurstaðan eins marks sigur Ítalíu, 27-26.

Andri Már Rúnarsson og Benedikt Gunnar Óskarsson voru markahæstir í íslenska liðinu með sex mörk hvor. Adam Thorstensen átti eins og áður segir góða innkomu í markið og varði fimm skot af þeim tíu sem hann fékk á sig.

Ísland er nú á botni D-riðils með eitt stig eftir tvo leiki, en Ítalir sitja í öðru sæti með tvö stig. Tvö efstu lið riðilsins halda áfram í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×