Slökkviliðsmenn hafa barist við að halda aftur af gróðureldunum í Frakklandi, Spáni og Portúgal en hitabylgjan sem ríður yfir Evrópu hefur aukið á eldana.
Í héraðinu Gironde í suðvestur Frakklandi þurfti að flytja burt meira en tólf þúsund manns þar sem sterkir vindar gerðu slökkviliðsmönnum erfitt fyrir að slökkva elda sem kviknuðu í nærliggjandi greniskógum. Eldurinn þar og annar skammt frá, rétt sunnan við Bordeaux, hafa tortímt meira en tíu þúsund hekturum.

Á Spáni hefur gífurlegur hitinn erfiðað störf slökkviliðsmanna en þar hefur hitinn náð upp í rúmar 45 gráður. Í bænum Mijas nálægt Costa del Sol þurfti að flytja meira en þrjú þúsund manns frá heimilum þeirra vegna gróðurelda í nágrenni við bæinn.
Portúgalar hafa komið illa út úr hitabylgjunni en að sögn heilbrigðisráðuneytis Portúgals létust 238 manns vegna hitabylgjunnar sem reið yfir frá 7. til 13. júlí en þar af voru flestir hinn látnu eldra fólk. Þá hafa meira en 160 manns slasast í gróðureldum sem herja á landið og hundruð manna þurft að flýja heimili sín.
Á föstudag lést flugmaður slökkviliðsflugvélar þegar flugvél hans hrapaði í miðri slökkviaðgerð nálægt landamærunum að Spáni. Hann er sá fyrsti sem deyr í landinu vegna gróðureldanna.
