Skoðun

Stærsta verk­efnið: Verð­bólga

Lilja Alfreðsdóttir skrifar

Óumflýjanlegar efna­hagsaðgerðir stjórn­valda um heim all­an á Covid-19 tím­an­um sem snéru að aukn­um umsvifum hins opinbera og rýmri pen­inga­stefnu hafa ýtt und­ir hækk­un á vöru og þjónustu. Þessu til viðbót­ar hef­ur innrás Rúss­lands í Úkraínu haft mik­il áhrif á verðbólgu á heimsvísu. Verð á nauðsynlegum hrávörum, orku og matvöru hef­ur hækkað veru­lega og eru afleiðing­arn­ar afar nei­kvæðar fyr­ir heims­bú­skap­inn. Á sama tíma eru mjög ríki enn að fást við far­sótt­ina og hef­ur það lam­andi áhrif fram­leiðslu­keðju heims­ins. Ofan á þetta bæt­ist að skort­ur á vinnu­afli í mörg­um helstu hag­kerf­um heims­ins. Þetta er staðan sem við glímum við.

Seðlabankar víða um heiminn hafa hækkað stýri­vexti sína með það fyrir augum að draga úr verðbólgu­vænt­ing­um. Verðbólga í Banda­ríkj­un­um í maí mæld­ist 9,1% á árs­grund­velli og er sú mesta í yfir 40 ár. Verð á hveiti á heimsvísu hef­ur hækkað um 56% og mjólkuraf­urðir um 17%. Þá hefur verð á helíum hækkað um 135% á síðustu tveimur árum vegna erfiðleika í verksmiðjum í Rússlandi og Bandaríkjunum. Frumefnið er til að mynda mikilvægur þáttur í framleiðslu ljósleiðaraglers og skortur á því ógnar framþróun stafræna hagkerfisins.

Verðbólgan á evrusvæðinu mældist 8,6% í júní. Seðlabanki Evrópu hækkaði stýrivexti um 0,5% í gær í fyrsta sinn frá árinu 2011. Eftir hækkunina eru stýrivextir bankans komnir í 0%. Vísbendingar er þó um það á evrusvæðinu að snarpur samdráttur sé í vændum þar sem framleiðsla og nýjar pantanir drógust saman í fyrsta sinn eftir Covid-19. Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af þess­ari þróun. Verðbólg­an mæl­ist 9,9% en án hús­næðisliðar­ins er hún 7,5%. Verðbólgu­vænt­ing­ar hafa einnig auk­ist. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga verði um 4,9% árið 2023 og 3,3% árið 2024. Skort­ur hef­ur verið á vinnu­markaði og mik­il eft­ir­spurn eft­ir vinnu­afli. Hækk­un hús­næðisliðar vísi­tölu neyslu­verðs hef­ur haft mest áhrif á þróun verðlags und­an­far­in miss­eri.

Meg­in­verk­efni allra hag­kerfa verður að ná utan um verðbólgu­vænt­ing­ar og ráðlegg­ur Alþjóðagreiðslu­bank­inn seðlabönk­um að vera ófeimn­ir að bregðast hratt við til skamms tíma með það að leiðarljósi að til lengri tíma verði búið að ná verðbólg­unni niður. Seðlabanki Íslands hefur hækkað stýrivexti í nokkrum skrefum frá maí 2021 eða úr 0,75% í 4,75%.

Íslensk stjórnvöld hafa þegar ráðist í mót­vægisaðgerðir sem felast í því að bæt­ur al­manna­trygginga hafa verið hækkaðar, ráðist var í sér­stak­an barna­bóta­auka og hús­næðis­bæt­ur voru hækkaðar. Farið verður í 27 millj­arða aðhaldsaðgerðir hjá ríkissjóði til að draga úr verðbólguþrýst­ingi. Sam­keppnis­eftirlitið hóf upp­lýs­inga­öfl­un um þróun verðlags á helstu mörkuðum í apríl til að meta hvort verðlags­hækk­an­ir kunni að stafa af ónægu sam­keppn­is­legu aðhaldi eða óeðli­leg­um hvöt­um. Sér­stök áhersla er lögð á dag­vörumarkað, eldsneyt­is­markað og bygg­ing­ar­vörumarkað. Það ger­ir Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu auðveld­ara um vik að greina óhag­stæð ytri áhrif á verðþróun eða greina hvort verðhækk­an­ir kunni að stafa af mögu­leg­um samkeppnisbresti á viðkom­andi mörkuðum. Að auki hef­ur verið skipaður vinnu­hóp­ur til að greina gjald­töku og arðsemi bank­anna. Stór hluti af út­gjöld­um heim­il­anna renn­ur til bank­anna, í formi af­borg­ana af hús­næðis-, bíla- og neyslu­lán­um auk vaxta- og þjón­ustu­gjalda. Mark­miðið er að kanna hvort ís­lensk heim­ili greiði meira fyr­ir al­menna viðskipta­bankaþjón­ustu en heim­ili í hinum nor­rænu ríkj­un­um. Það er verk að vinna til að ná tök­um á verðbólgu.

Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar verður að koma bönd­um á verðbólg­una til heilla fyrir allt samfélagið. Brýnt er að sjá hvernig þessar aðgerðir stjórnvalda koma til með að hafa áhrif. Ljóst er þó að lækki verðbólgan ekki nokkuð á næstu mánuðum, þá er aðkallandi að fara í frekari aðgerðir til að kveða verðbólgudrauginn í kútinn. Ávallt verða stjórnvöld að huga mest að þeim sem eru í viðkvæmri efnahagslegri stöðu.

Höfundur er ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×