Fótbolti

Stelpurnar okkar ná nýjum hæðum á heimslista

Sindri Sverrisson skrifar
Þrátt fyrir að hafa ekki tapað leik á EM héldu stelpurnar okkar svekktar heim eftir 1-1 jafntefli við Frakkland. Eitt mark til viðbótar hefði skilað liðinu í 8-liða úrslit.
Þrátt fyrir að hafa ekki tapað leik á EM héldu stelpurnar okkar svekktar heim eftir 1-1 jafntefli við Frakkland. Eitt mark til viðbótar hefði skilað liðinu í 8-liða úrslit. vísir/vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er það 14. besta af öllum í heiminum samkvæmt nýjasta styrkleikalista FIFA.

Þetta er fyrsta útgáfa heimslistans eftir að Evrópumótinu í Englandi lauk en þar töpuðu stelpurnar okkar ekki einum einasta leik. Þær féllu þó úr keppni eftir að hafa gert 1-1 jafntefli í öllum þremur leikjum sínum, gegn Belgíu, Ítalíu og Frakklandi.

Þessi úrslit hjálpuðu liðinu hins vegar að komast ofar en það hefur nokkru sinni komist á heimslista FIFA, eða í 14. sæti. Áður hafði Ísland hæst náð 15. sæti á listanum. Liðið var í 17. sæti þegar síðasti listi var gefinn út, í júní.

Af Evrópuþjóðum er Ísland í áttunda sæti, fyrir ofan Belgíu og Austurríki sem þó komust í 8-liða úrslitin á EM. 

Upp fyrir Danmörku og Ítalíu

Ísland komst upp fyrir Ítalíu, Kína og Danmörku og er nú næst á eftir Noregi sem er í 13. sæti eftir mikil vonbrigði á EM.

Bandaríkin tróna á toppi listans en þar á eftir koma Þýskaland, sem færist upp í 2. sæti, Svíþjóð og England, sem færist upp í 4. sæti eftir að hafa unnið Þjóðverja í úrslitaleik EM.

Næsta verkefni Íslands er afar mikilvægt en í byrjun næsta mánaðar mætir liðið Hvíta-Rússlandi á heimavelli og svo Hollandi á útivelli. Sigur á Hvít-Rússum og að minnsta kosti jafntefli gegn Hollandi myndi tryggja Íslandi sæti á HM á næsta ári, í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×