Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu í Meradölum. Svæðinu var lokað almenningi vegna veðurs í gær og var tekin ákvörðun í morgun um að það áfram yrði lokað í dag í ljósi slæmra veðurskilyrða.
Mikill fjöldi var á svæðinu á laugardaginn við nokkuð erfiðar aðstæðir, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Unnið hefur verið að því að bæta gönguleiðir að eldgosinu, en nokkuð torfærara er að komast að því en eldgosinu sem gaus á svipuðum slóðum á síðasta ári.
Björgunarsveitin Þorbjörn stikaði gönguleið í síðustu viku, svokallaða A-leið, sem sjá má á korti hér fyrir ofan. Í dag verður unnið að því að lagfæra erfiðasta kafla hennar, að sögn Boga Adolfssonar, formanns björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.
„Í dag fer grafa upp og fer að moka í efri partinum á A-leiðinni sem er svona erfiðasta hindrunin. Þar er halli og grýtt. Það á að fara að taka þar sneiðing og gera gönguleiðina betri þannig að það er alltaf verið að vinna í þeim þætti,“ sagði Bogi í Bítinu á Bylgjunni í morgun, þar sem hann ræddi störf björgunarsveita á gosstöðvunum.
Hlusta má á viðtalið við hann í heild sinni hér að neðan.