Innlent

Höfuð Þor­steins numið á brott úr Hall­orms­staða­skógi

Jakob Bjarnar skrifar
Þessi stytta, brjóstmynd af Þorsteini Valdimarssyni skáldi, sem stóð í Trjásafninu Hallormsstað er horfin.
Þessi stytta, brjóstmynd af Þorsteini Valdimarssyni skáldi, sem stóð í Trjásafninu Hallormsstað er horfin. aðsend

Brjóstmynd af einu af þekktari ljóðskáldum þjóðarinnar, Þorsteini Valdimarssyni, sem staðið hefur í Trjásafninu í Hallormsstaðaskógi í áratugi, hefur verið brotin af stalli sínum og numin á brott.

Þetta kemur fram í tilkynningu Péturs Péturssonar kynningarstjóra Skógræktarinnar. Hvarfið hefur verið tilkynnt til lögreglu sem þjófnaður og skemmdarverk.

Þjófarnir gerðu sér lítið fyrir og brutu höfuð Þorsteins af stalli sínum.aðsend

Nánar er greint frá þessum hvarfi styttunnar á vef Skógræktarinnar en þar kemur fram að brjóstmyndin hafi staðið í Trjásafninu í Mörkinni á Hallormsstað til minningar um Þorstein (1918-1977). Þorsteinn var bæði þekkt skáld og starfaði öðru hverju hjá Skógræktinni sem sumarstarfsmaður.

Brjóstmyndin, sem Magnús Á Árnason myndlistarmaður gerði, stóð þar sem Þorsteinn bjó gjarnan um sig í tjaldi og kallaði Svefnósa. Í tilkynningunni segir að Þorsteinn hafi verið með þekktustu ljóðskáldum þjóðarinnar og að hann hafi sent frá sér átta ljóðabækur. „Unnendur skáldsins og skógarins vona heitt og innilega að myndin skili sér til baka og hægt verði að lagfæra hana og koma fyrir á sínum stað á ný. Allar ábendingar um hvarfið eru vel þegnar,“ segir Pétur Halldórsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×