Þegar reynt er að bóka tíma hjá heimilislækni kemur þetta vandamál glögglega í ljós. Hjá Heilsugæslunni Miðbæ er næsti lausi tími ekki fyrr en 5. október, eftir sjö vikur.
Í Seltjarnarnesbæ er hægt að komast að örlítið fyrr að - fyrsti lausi tíminn er eftir tæpar fjórar vikur; 12. september. Í Hlíðunum er staðan þó verst; enginn læknir á lausan tíma og því er ekkert hægt að bóka - menn verða bara að mæta.
„Já, það er dáldið löng bið núna. En það byggist svoldið á því, sérstaklega á undanförnu ári, að þá hefur skyndikomum fjölgað mjög mikið. Þannig við erum meira í að sinna bráðavandamálum heldur en áður,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þarna lýgur Óskar engu. Aukningin í óbókuðum komum er gríðarleg - rúm 28 prósent það sem af er ári ef miðað er við sama tímabil í fyrra. Þær hafa verið rúmlega 63 þúsund í ár.
En af hverju stafar þessi aukning?
„Ég veit það ekki alveg. En það er þannig að það er vísað meira á heilsugæsluna en áður og fólk þekkir okkur betur en áður. Og það er meira um að það sé verið að vísa fólki frá, til dæmis af bráðamóttökunni þar sem staðan hefur verið erfið og við tökum gjarnan við þeim vandamálum sem eiga heima á heilsugæslunni,“ segir Óskar.
En hvað á fólk að gera í þessari stöðu? Þeir sem ekki geta beðið í margar vikur með að láta sinna sér í veikindunum velta þessu líklega fyrir sér.
„Við þurfum að sinna bráðavandamálum. Ef að fólk getur ekki beðið eftir bókuðum tíma þá verður það bara að mæta og þá tökum við að sjálfsögðu á móti því fólki,“ segir Óskar.
Þetta er þó tímabundið vandamál, að mestu leyti, segir Óskar. Það er nefnilega gífurlegur fjöldi lækna enn í sumarfríi.
„Við erum kannski ekki með nema svona sirka helming lækna okkar í vinnu þessa dagana og það auðvitað dregur úr skipulögðum tímum þegar það þurfa mjög margir af þeim læknum sem eru við vinnu að sinna bráðaþjónustu,“ segir Óskar.