Í nýrri verðbólguspá greiningadeildar Íslandsbanka kemur fram að VNV muni hækka um 0,5 prósent í ágúst. Þar af leiðandi myndi tólf mánaða verðbólga mælast tíu prósent.
Samkvæmt greiningardeildinni eru það útsölulok og íbúðaverð sem skýra hækkunina að mestu. Tíu prósentin muni þó vera toppurinn á verðbólgunni og spáir deildin því að í nóvember verði verðbólgan komin niður í 9,7 prósent.
Reiknuð húsaleiga hefur hækkað um tæplega fimmtán prósent frá áramótum og mælist árshækkun á íbúðaverði nú um 25 prósent á landinu öllu. Deildin gerir ráð fyrir því að nú fari að hægja verulega á hækkunum íbúðaverðs.
Hagfræðideild Landsbankans er þó ósammála því að verðbólgan nái að rjúfa tíu prósenta múrinn. Deildin á von á því að VNV muni hækka um 0,4 prósent og því muni tólf mánaða verðbólga standa í 9,9 prósentum.
Deildin er þó sammála kollegum sínum að því leiti að uppi séu merki um kólnun á fasteignamarkaði. Þá eru deildirnar einnig sammála um það að þeir liðir sem hægja á hækkun VNV séu eldsneytiskostnaður og flugfargjöld.