Fótbolti

Benzema valinn leikmaður ársins | Putellas best annað árið í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alxia Putellas og Karim Benzema voru valin best af UEFA.
Alxia Putellas og Karim Benzema voru valin best af UEFA. Joosep Martinson - UEFA/UEFA via Getty Images

Alexia Putellas og Karim Benzema eru besta knattspyrnufólk Evrópu að mati evrópska knattspyrnusambandsins UEFA. Valið var kunngjört eftir að dregið var í riðla í Meistaradeild Evrópu fyrr í dag.

Veitt voru verðlaun fyrir bestu leikmenn ársins bæði í karla- og kvennaflokkki, ásamt því að þjálfarar ársins voru tilkynntir.

Sigurvegararnir koma kannski fáum á óvart, en í karlaflokki var það Frakkinn Karim Benzema, framherji Real Madrid, sem var valinn leikmaður ársins. Benzema  var valinn leikmaður ársins í Meistaradeild Evrópu á seinasta tímabili er Real Madrid fagnaði sigri í keppninni, ásamt því að eiga frábært tímabil heimafyrir þar sem Madrídingar tryggðu sér spænska meistaratitilinn.

Ásamt Benzema voru þeir Thibaut Courtois (Real Madrid) og Kevin de Bruyne (Manchester City) tilnefndir til verðlaunanna.

Valið um þjálfara ársins stóð á milli Carlo Ancelotti (Real Madrid), Pep Guardiola (Manchester City) og Jürgen Klopp (Liverpool), en það var sigurvegari Meistaradeildarinnar, Carlo Ancelotti, sem hlaut verðlaunin.

Í kvennaflokki var það kunnulegt nafn sem var valin leikmaður ársins, en það var hin spænska Alexia Putellas, leikmaður Barcelona, sem hlaut verðlaunin annað árið í röð. Sarina Weigman var valin þjálfari ársins í kvennaflokki, en hún gerði Englendinga að Evrópumeisturum fyrr í sumar eins og frægt er orðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×